Erlent

Dómararnir sækja í vændiskonur

Á einu ári hafa þrír sænskir dómarar verið staðnir að því að kaupa sér blíðu vændiskvenna sem er refsiverður verknaður í Svíþjóð. Tveir dómaranna voru gripnir við iðjuna í Stokkhólmi en sá þriðji, dómari við undirrétt á Skáni, leitaði í vændihús sem rekið var í húsakynnum sólbaðsstofu í Malmö. Nafn dómarans kom ítrekað upp við lögreglurannsókn en hann neitaði allri sök og sagðist eingöngu hafa fengið baknudd á sólbaðsstofunni. Eitthvað hresstist þó upp á minnið þegar lögregla lék hljóðupptökur af því þegar hann pantar sér þrjár vændiskonur samtímis. Ólíkt íslenska lagabókstafnum er kaup á vændi refsivert athæfi í Svíþjóð og lauk málinu með dómssátt þar sem dómaranum er gert að greiða því sem nemur 180 þúsund íslenskum krónum í sekt. Sænski ríkislögmaðurinn Sven-Erik Alhem segir dóminn vera hneyksli fyrir sænskt réttarfar. Hans skoðun er sú að reka hefði átt héraðdómarann úr starfi og dæma til fangelsisvistar. Þá hefur formaður sænska dómarafélagsins, Ralf Larsson, lýst því yfir að maður sem sýni þann dómgreindarskort að kaupa vændisþjónustu sé ekki hæfur til að gegna stöðu dómara. Dómarinn sjálfur lítur þó svo á að málinu sé lokið og hefur ekki séð ástæðu til að tjá sig um það við fjölmiðla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×