Erlent

Lofthjúpur um Enceladus

Geimvísindamenn segja uppgötvanir sínar um Enceladus, eitt tungla Satúrnusar, hreint út sagt ótrúlegar. Með því að nota hið geysitæknilega geimfar Cassini-Huygens hefur þeim tekist að fá staðfest að umhverfis tunglið, sem er rétt um 500 kílómetrar í þvermál, er allþykkur lofthjúpur. Þeir hafa einnig komist að því að á öðrum pól þessa íshnattar virðist vera vatn í fljótandi formi í einskonar ám sem mynda rákir á yfirborði tunglsins. Vísindamennirnir hafa hinsvegar ekki skýringu á hinni miklu virkni tunglins Enceladus. Tunglið er eitt af aðalviðfangsefnum Cassini-leiðangursins sem komst inn í tunglakerfi Satúrnusar fyrir um einu ári. Cassini-gervitunglið er sagt vera sá hlutur í alheiminum sem varpar best frá sér ljósi en um 90 prósent þeirrar birtu sem lendir á farinu endurvarpar það um hæl aftur út í geiminn. Farið er á sporbaug um Satúrnus, um 240 þúsund kílómetra frá yfirborðinu eða eins og í ysta hring reikistjörnunnar. Leiðangurinn kostar 3,2 milljarða Bandaríkjadala og er samstarfsverkefni NASA, evrópsku geimferðastofunarinnar og ítölsku geimferðastofnunarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×