Erlent

Sjö innflytjendur létust í bruna

Sjö innflytjendur frá Fílabeinsströndinni létust þegar niðurnítt íbúðarhús í úthverfi Parísar brann til grunna í fyrrinótt, þar af fjögur börn. Þetta er annar mannskæði bruninn í borginni í vikunni og sá þriðji síðan í apríl. Eftir þessa þrjá bruna þar sem samtals 48 hafa látist hefur kastljósinu verið beint að hrikalegum aðbúnaði sem fjöldi innflytjenda í París býr við. Í brunanum í fyrrinótt var eitt fórnarlambanna sex ára gamall drengur sem lést þegar móðir hans fleygði honum út um glugga á fimmtu hæð til að reyna að bjarga honum frá eldsvoðanum. Lík móðurinnar, sem var þunguð, og þriggja ára gamallar systur drengsins fundust í rústunum þegar tekist hafði að slökkva eldinn. Á sömu hæð fundu slökkviliðsmenn aðra fjölskyldu sem lést í brunanum, konu sem ólétt var af tvíburum, eiginmann hennar og tvö börn þeirra barnung. Tveir karlmenn slösuðust mjög alvarlega við að stökkva út um glugga til að reyna að flýja eldinn. Ellefu þar til viðbótar, þar á meðal fimm slökkviliðsmenn hlutu alvarlega áverka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×