Innlent

Blindur leikur á fiðlu

Guðfinnur Vilhelm Karlsson hefur verið blindur frá fæðingu en það aftrar honum ekki að seiða fram úr hljóðfærinu sínu fagra tóna. Hann hefur lært á fiðlu í níu ár og leikur oft á tónleikum og í veislum. Guðfinnur Vilhelm, geriði svo vel. Guðfinnur Vilhelm Karlsson stundar fiðlunám í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, en hann byrjaði að læra á fiðlu þegar hann var átta ára gamall. Hann er nú á fimmta stigi í náminu sem hann segir mjög skemmtilegt og segist kunna að leika um hundrað lög á hljóðfærið. Aðspurður hvað hann fái út úr tónlistinni segir Guðfinnur að hann fái ánægju af því að setja fram flott lög. Spurður hvernig hann fari að því að læra nótur segir Guðfinnur að lögin sem hann læri séu sett á diska og hann hlusti á þá. Hann reyni að ná nótunum og svo fái hann leiðbeiningar eftir á hjá kennaranum. Guðfinnur æfir sig á fiðluna á hverjum degi og segir það nauðsynlegt til að vera í góðri æfingu. Hann segist hafa mjög gaman af því að spila fyrir aðra. Hann spili á þremur til fjórum tónleikum á ári og svo hafi hann verið fenginn til þess að spila í tveimur brúðkaupum og nokkrum sinnum í veislum. Spurður hvernig honum finnist að spila fyrir fólk segir Guðfinnur að hann sé stressaður í byrjun en það hverfi þegar hann byrji að spila. En það er ekki bara fiðla sem Guðfinnur kann að spila á. Hann segist hafa byrjað á að spila á blokkflautu og svo eigi hann hljómborð heima sem hann glamri á. Tónlistarkennari Guðfinns, Margrét Þorsteinsdóttir, segir fatlaða krakka, hvort sem þeir eru blindir eða eiga við aðra fötlun að stríða, hafa alla möguleika til að læra á hljóðfæri. Svipuð áhersla sé lögð á námið hjá öllum en það gefi fötluðum nemendum aukið sjálfstraust að standa jafnfætis ófötluðum með þessum hætti og það sé þeim ómetanlegt. Hún segir möguleikana svo marga að þetta verði sífellt auðveldara og það verði að segja um Guðfinn, eins og flesta, að aðstendurnir skipti miklu máli vegna stuðningsins og til þess að gera þetta mögulegt. Skólastjórnendur í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar hafi líka sýnt frábæran skilning og samstarf hennar og Guðfinns hafi gengið algjörlega vandræðalaust. Margét Þorsteinsdóttir segir enn fremur að nemendur geti þegar best gegnir notað hljóðfærið sitt sem miðil til að tjá sig og túlka og það veiti þeim mikla lífsfyllingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×