Erlent

Blair aftur upp á kant við BBC

Svo virðist sem Tony Blair, forsætisráðherra Bretlans, sé aftur kominn upp á kant við breska ríkissútvarpið BBC og þetta sinn vegna frétta BBC af fellibylnum Katrínu. Fjölmiðlakóngurinn Rupert Murdoch, sem á meðal annars götublaðið Sun og Sky-sjónvarpsstöðvarnar, greindi frá því í ræðu í New York í gær að Blair hefði tjáð sér á dögunum að honum fyndist umfjöllun BBC um náttúruhamfarirnar í suðurríkjum Bandaríkjanna uppfull af hatri í garð Bandaríkjanna. Talsmenn BBC hafna þessum ásökunum algjörlega og segja fréttaflutninginn hlutlausan og áreiðanlegan en forsætisráðuneyti Bretlands hefur ekki tjáð sig um orð Murdochs. Ekki eru nema tvö ár síðan BBC deildi hatrammlega við Blair um upplýsingar sem lagðar voru fram til grundvallar innrásinni í Írak, en deilurnar leiddu m.a. til umfangsmikillar rannsóknar á fréttum BBC og afsagnar yfirmanns stofnunarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×