Erlent

Fílarnir að sálast úr þorsta

Þorstinn slökktur. Fílarnir í Kenía hafa nóg vatn að drekka en frændur þeirra í Simbabve búa við sáran þorsta.
Þorstinn slökktur. Fílarnir í Kenía hafa nóg vatn að drekka en frændur þeirra í Simbabve búa við sáran þorsta.

Fílar hafa drepist unnvörpum úr þorsta í þjóðgörðum Simbabve vegna þess að vatnsveitum er ekki haldið við. Engir fjármunir eru til viðgerða því landið rambar á barmi gjaldþrots.

Efnahagur Simbabve er herfilegur, verðbólga þar er rúmlega 400 prósent og gjaldeyrisforði landsins er því sem næst uppurinn. Íbúar landsins búa við afar kröpp kjör og dýrin í landinu hafa ekki heldur farið varhluta af ástandinu. Vatnsból í þjóðgörðum landsins eru nánast að þorna upp af því að vatnsleiðslur, borar og dælur hafa grotnað niður vegna viðhaldsleysis eða orðið fyrir barðinu á skemmdarvörgum og þjófum.

Ekkert fé er til að bæta tjónið. Breska blaðið Independent segir að á þessu ári hafi 400 fílar dáið úr þorsta í stærsta þjóðgarði landsins en einnig hafa antílópur, bufflar og fleiri dýrategundir drepist í stórum stíl. Það sem gerir ástandið svo sárgrætilegt er að gnótt vatns er í þjóðgörðunum en búnað skortir til að dæla því og flytja það.

Þá eru einhver brögð að því að fólk skjóti sér dýr til matar og hafa þjóðgarðsverðir engin tök á að bregðast við ástandinu vegna þess að ekkert bensín er til á bíla þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×