Innlent

Gölluð vegrið kosta mannslíf

Vegrið við Breiðholtsbraut, þar sem ung stúlka lést í bílslysi í gær, er gallað og of stutt að mati framkvæmdastjóra rannsóknarnefndar umferðarslysa. Nefndin telur vegrið almennt of stutt hérlendis og sendi Vegagerðinni nýlega athugasemd þess efnis í kjölfar banaslyss í Eyjafirði fyrir sex vikum. Nítján ára gömul stúlka lést í umferðarslysi á Breiðholtsbraut við Norðlingaholt í gærmorgun. Hún hét Lovísa Rut Bjargmundsdóttir og var til heimilis að Hraunbæ 84 í Reykjavík. Svo virðist sem bílnum hafi verið ekið upp á vegrið og hann farið eftir því öfugu megin áður en hann valt og hrapaði niður á göngustíg sem liggur undir veginn. Ágúst Mogensen, framkvæmdastjóri rannsóknarnefndar umferðarslysa, kynnti sér vettvang í gær og segir að í fyrsta lagi megi deila um hvort vegriðið sé nógu langt. Hann telur að svo sé ekki. Í öðru lagi sé þetta spurning um frágang á vegriðinu, þ.e. umrætt vegrið sé beygt niður í jörðina sem geri að verkum að bílar geti „prílað“ upp á það. Ágúst rifjar upp tvö alvarleg umferðarslys sem urðu við Hólmsá hjá Geithálsi, annað í aprílmánuði árið 2000 en hitt í nóvembermánuði árið 2002. Öðruvísi frágangur á vegriði er talinn hafa getað komið í veg fyrir að bílarnir færu á hvolf út í ána. Það þótti raunar ganga kraftaverki næst að allir skyldu komast lifandi úr þessum slysum. Ágúst segir rannsóknarnefndina hafa sent Vegagerðinni nýlega bréf vegna annars umferðarslyss þar sem lagt var upp með að almennt væru vegrið of stutt hér á landi. Slysið sem um ræðir varð á þjóðveginum milli Akureyrar og Dalvíkur þann 23. mars síðastliðinn en þá lést 19 ára gamall piltur er bíll hans fór út af veginum og steyptist fram af hömrum. Það slys, svo og slysið í gær, virðast vera dæmi um að lengri vegrið hefðu getað bjargað bjargað mannslífum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×