Innlent

Kjör öryrkja hér með þeim lökustu í Evrópu

"Það er afskaplega dapurt að vera á svipuðum slóðum og Spánn og Portúgal þegar kemur að málum sem varða öryrkja," segir Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands. Hann kynnti í gær nýja skýrslu sína um örorku og velferð á Íslandi og í öðrum löndum og er niðurstaða hans áfellisdómur yfir aðgerðum stjórnvalda gagnvart öryrkjum síðustu tíu árin.

Skýrslan sýnir að heildarútgjöld ríkisins til örorkumála eru vel undir meðallagi Evrópuríkja og að þvert á það sem haldið hefur verið fram eru öryrkjar ekki margir hér í samanburði við nágrannaþjóðirnar. Sé borinn saman árangur OECD ríkjanna í að veita öryrkjum viðunandi fjárhagsafkomu og samfélagsleg úrræði er Ísland á sama róli og þjóðir á borð við Spán og Portúgal. Stefán segir það lélegt í þjóð­félagi sem býr við mikið ríki­dæmi.

"Það er lélegt að vera á svipuðu róli hvað þessi mál varðar og suður-evrópskar þjóðir því þær eru þekktar fyrir veikburða velferðarkerfi. Allt annað en er uppi á teningnum hér á norðlægari slóðum þar sem eru þær þjóðir sem við ættum að vera að bera okkur saman við því við höfum sömu tækifæri og þær."

Telur Stefán að skipulag starfs­endurhæfingarmála sé sundurlaust, stórauka þurfi atvinnutækifæri allra öryrkja og að velferðarkerfið eins og það er í dag haldi mörgum í fátæktargildru vegna skerðingarreglna og naumra kjara. Mikið verk sé óunnið og óásættanlegt að öryrkjar margir hverjir í þessu ríka landi búi við þær aðstæður að vera fastagestir hjá ölmusustofnunum samfélagsins.

Undir þetta tekur Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalagsins. "Skýrsla Stefáns setur hlutina í samhengi. Við erum í botnsætum hvað velferð öryrkja varðar í samanburði og ljóst að átaks er þörf. Stokka þarf upp almannatryggingakerfið, endur­skoða lög um málefni fatlaðra og brýnt að endurskoða hvernig öryrkjar geti orðið virkir þátttakendur í að skapa hér samfélag sem sannarlega er hægt að segja að sé fyrir alla. Ég neita að trúa að til sé sá stjórnmálamaður á Íslandi sem vill að fólk búi við þau kröppu kjör sem fatlaðir búa við í dag og skýrslan staðfestir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×