Innlent

Lokka fólk austur

Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð ætla að lokka til sín fólk af suðvesturhorninu með því að byggja upp íþróttamannvirki fyrir fjárhæð sem samsvarar einni milljón króna á hverja fjölskyldu í bæjarfélaginu. Stærsta íþróttahöll Austurlands og ný sundlaug eru meðal þess sem á að fá fólk til að flytja austur.

Áhrif stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi koma hvað sterkast fram í þéttbýlinu á Reyðarfirði þar sem þegar er flutt inn í fyrsta háhýsið og háhýsi nú tvö er að spretta upp úr jörðinni. Þar skammt fyrir ofan mótar nú fyrir útlínum stærsta íþróttamannvirkis fjórðungsins, níuþúsund fermetra íþróttahöll sem hýsa mun knattspyrnuvöll í fullri stærð. Á Reyðarfirði er jafnframt verið að byggja líkamsræktarstöð við gamla íþróttahúsið en alls er verið að reisa íþróttamannvirki í Fjarðabyggð fyrir þrettán hundruð milljónir króna.

Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri segir ástæður fyrir þessari miklu uppbyggingu einfaldlega þær að ná þurfi fólki austur, af suðvesturhorninu.

Á Eskifirði er verið leggja hitaveitu um bæinn en heitt vatn fannst fyrir þremur árum inn af botni Eskifjarðar. Fundur heita vatnsins hvatti menn til að ráðast í sundlaugarsmíði og eru Íslenskir aðalverktakar nú að byggja laugina fyrir Eignarhaldsfélagið Fasteign, sem verður eigandi hennar. Norðfirðingar munu einnig njóta framkvæmda á þessu sviði en í Neskaupstað er verið að endurbyggja gömlu laugina og þar er jafnframt að hefjast lagning gervigrasvallar.

bæjarstjórinn segir framkvæmdirnar lyftistöng fyrir bæjarfélagið þó þær séu dýrar og því sé verið að skoða kosti einkavæðingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×