Innlent

Stjórnarandstaðan krefst frekari skýringa

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon

"Var ekki Condoleezza Rice uppvís að því að fara með lygar gagnvart Írum? Það er búið að staðfesta að Bandaríkjamenn hafi verið með fangelsi í öðrum löndum þar sem þeir stunda það sem þeir kalla háþróaðar yfirheyrsluaðferðir," segir Guðjón Arnar Kristinsson, Frjálslynda flokknum, um þá yfirlýsingu Geirs Haarde utanríkisráðherra að hann sé sáttur við þau svör sem Rice gaf um fangaflug og pyntingar í leynifangelsum á vegum Bandaríkjamanna.

"Það er alltaf sami undirlægjuhátturinn á ferðinni hér ef einhver pótintáti í Bandaríkjunum opnar á sér kjaftinn. Það á alltaf bara að taka það gott og gilt. Mér finnst ekki að við eigum að gera það," bætir Guðjón við.

Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu hefur komið fram að Geir þyki svörin fullnægjandi og hefur hann sagt að nú sé kominn ákveðinn botn í málið. Í ræðu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á dögunum sagði hún að allt sem Bandaríkin gerðu í nafni stríðsins gegn hryðjuverkum væri innan ramma laganna en neitaði þó að svara fyrirspurnum um tilvist leynifangelsa.

"Það er furðulegt að reyna að túlka þessa loðmullulegu yfirlýsingu Condoleezzu Rice sem einhverja hreinsun á málinu hvað varðar okkur Íslendinga. Í raun og veru eru bæði Rice og Geir Haarde ótrúlega seinheppin vegna þess að á sama tíma birta bandarískir fjölmiðlar, Amnesty International og Mannréttindavaktin afhjúpandi upplýsingar um málið," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna.

Steingrímur bendir á að staðfestum málum um fangaflug og pyntingum í leynifangelsum á vegum bandarísku leyniþjónustunnar fari sífellt fjölgandi. "Íslensk stjórnvöld geta ekki skýlt sér á bak við það að fá eða fá ekki upplýsingar frá Bandaríkjamönnum. Okkur ber skylda til þess að rannsaka og upplýsa þessi mál," segir Steingrímur.

"Það sýnir ótrúlega sáttfýsi að Geir skuli vera sáttur við þessi orð Rice vegna þess að rannsóknir fjölmiðla benda til alls annars en þess sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna fullyrðir í ræðunni. Krafan er vitaskuld sú að íslensk stjórnvöld rannsaki málið á eigin spýtur en taki ekki athugasemdalaust þeim svörum sem frá Bandaríkjunum koma," segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×