Erlent

Fjórðungur of feitur

Bandaríkjamenn fitna nú hraðar en nokkru sinni fyrr en talið er að 64,5 prósent þjóðarinnar séu yfir kjörþyngd. Áróður fyrir heilsusamlegri lifnaðarháttum virðist litlu hafa skilað. Bandaríkjamenn eru feitasta þjóð í heimi og ný rannsókn samtakanna Trust for America's Health sem sagt er frá á heimasíðu BBC bendir til að þeir bæti enn á sig kílóunum. 119 milljónir Bandaríkjamanna eða 64,5 prósent glíma annað hvort við ofþyngd (nokkuð yfir kjörþyngd) eða offitu (umtalsvert yfir kjörþyngd). Á síðasta ári fjölgaði þeim sem glíma við offitu í 48 ríkjum Bandaríkjanna. Aðeins íbúar Oregon-ríkis í norðvesturhluta landsins stóðu í stað í þessum efnum en þar er rúmlega fimmtungur íbúanna of feitur. Hawaii var ekki með í rannsókninni. Á landsvísu fjölgaði offitusjúklingum um tæpt prósentustig, árið 2004 voru 24,5 prósent Bandaríkjamanna of feitir samanborið við 23,7 prósent árið 2004. Í tíu ríkjum er stríðir ríflega fjórðungur íbúanna við sjúklega offitu. Mississippi-búar eru feitastir allra en íbúar Alabama og Vestur-Virginíu fylgja þeim fast á eftir. Slæmt mataræði og almennt hreyfingarleysi er skýringin á þessu holdafari og virðist áróður stjórnvalda fyrir bættari heilsu hafa jafn mikil áhrif og vatnskvettur á gæs. Trust for America's Health telur að árið 2008 verði 73 prósent landsmanna yfir kjörþyngd og þá sé voðinn vís. Offitutengdir sjúkdómar á borð við sykursýki og hjartasjúkdómar myndu sliga heilbrigðiskerfið og kosta skattgreiðendur milljarða dala. Engar líkur eru sagðar á að manneldismarkmið ríkisstjórnarinnar um að minnka offitu um 15 prósent fyrir árið 2010 náist. Holdafar Íslendinga er aðeins skárra, þó ekki mikið. Samkvæmt niðurstöðum Landskönnunar á mataræði 2002 voru um 57 prósent karla og fjörtíu prósent kvenna á aldrinum 15–80 ára yfir kjörþyngd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×