Erlent

Fílaflutningarnir frestuðust

Stærstu fílaflutningar í sögu Keníu standa nú yfir. Hlé hefur hins vegar verið gert á flutningunum þar sem bifreið sem flytja á fílana gaf sig undan þunganum. Kenísk yfirvöld áforma að flytja 400 fíla frá verndarsvæðinu í Shimba-hæðum til þjóðgarðsins í Austur-Tsavo 350 kílómetra í burtu. Shimba-hæðir eru heimkynni 600 fíla í dag en aðeins er talið að svæðið geti borið 200 dýr með góðu móti. Því hafa fílarnir gert sig heimakomna í mannabyggðum í æ ríkari mæli þar sem þeir slasa fólk og spilla uppskeru. Fyrsta dýrið sem átti að flytja var 22 ára tarfur en ekki vildi betur til en svo að flutningabíllinn sem flytja átti skepnuna á fimmtudaginn gaf sig undan þunga hennar. Því hefur flutningunum verið frestað um óákveðinn tíma og er því þessi 200 milljóna króna aðgerð í uppnámi. Hart hefur verið sótt að fílunum undanfarna áratugi. Árið 1972 bjuggu 25.268 fílar í Austur-Tsavo en í dag eru þeir einungis 10.397. Orsök fækkunarinnar er að sjálfsögðu veiðiþjófnaður en eftir að alþjóðlegt bann við viðskiptum með fílabein var sett á 1989 hefur mjög dregið úr slíkum drápum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×