Erlent

Mjótt á mununum

Horfurnar eru tvísýnar fyrir þingkosningarnar í Þýskalandi sem haldnar verða 18. september. Við höfuðstöðvar kristilegra demókrata í miðborg Berlínar er klukka sem telur niður til kosninganna og fyrir neðan hana stendur: "dagar til stjórnarskipta". Vissulega er útlitið ágætt fyrir kristilega demókrata og frjálslynda demókrata, helsta samstarfsflokk þeirra, en margt getur breyst á þeim vikum sem eftir eru fram að kosningum. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum fá kristilegir demókratar og frjálslyndir samanlagt 49 prósent atkvæða sem hugsanlega gæti dugað þeim til að ná meirihluta sæta í neðri deild þýska þingsins. Staða stjórnarflokkanna er öllu lakari, Sósíaldemókrataflokkur Gerhards Schröder kanslara mælist með 31 prósent atkvæða og samstarfsflokkur hans græningjar með 8 prósent. Hugsanlega gætu þessir tveir flokkar myndað meirihluta með Vinstriflokknum, sem hefur mikinn stuðning í austurhluta landsins og mælist með 7 prósent á landsvísu. Stjórnmálaskýrendur vilja þó meina að líklegra sé, ef kristilegum demókrötum tekst ekki að mynda meirihluta með frjálslyndum, að sósíaldemókratar og kristilegir demókratar gangi í eina sæng í eins konar þjóðstjórn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×