Innlent

Húsgagna- og byggingavöruverslanir rísa í Urriðaholtslandi

Stærstu húsgagna- og  byggingavöruverslanir landsins rísa nú í Urriðaholtslandi í Garðabæ og innan árs verður hafist handa við 3500 manna íbúðabyggð í holtinu. Oddfellow-reglan og Hagkaupsbræður standa að uppbyggingunni.

Þeir sem aka Reykjanesbrautina milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar þessa dagana komast ekki hjá því að sjá iðandi byggingarkrana og vinnuvélar þar sem áður var ósnortið hraun. Oddfellow-reglan á landið og stofnaði hún fyrirtækið Urriðaholt um uppbyggingu þess og fékk Hagkaupsbræður svonefnda til samstarfs við sig, þá Sigurð Gísla og Jón Pálmasyni. Urriðaholt fól síðan verktakafyrirtækinu Ístaki að annast framkvæmdir.

Fyrsta húsið sem rís er ný verslun IKEA á 21.000 fermetra gólffleti, sem þýðir að hún verður tvöfalt stærri en verslun IKEA í Holtagörðum og með stærri húsum á Reykjavíkursvæðinu. Á næstu lóð hyggst BYKO reisa stærstu byggingavöruverslun landsins, tólfþúsund fermetra að stærð. En þetta er aðeins byrjunin á miklu meiri framkvæmdum því að á næstu árum verður allt Urriðaholtið byggt upp.

Skipleggjendur svæðisins segja að sérstök áhersla sé lögð á verndun lífríkis Urriðavatns. Stefnt er að því að þessar hugmyndir verði kynntar íbúum á grenndinni fljótlega eftir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×