Erlent

Forseta steypt af stóli

Lífvarðasveit forsetans í Máritaníu tók völdin í gær, en forsetinn, Maaoya Sid'Ahmed Taya, var í Sádi-Arabíu við jarðarför Fahds konungs. Tilkynnt var að herstjórnin myndi stjórna landinu í allt að tvö ár, meðan það þróaðist til lýðræðis. Með því að steypa forsetanum af stóli segir herstjórnin að verið sé að binda enda á alræðisvald forsetans. Taya var í gær í Niamey, höfuðborg Níger, og neitaði að ræða við fréttamenn. Valdaránið hófst með því að lífvarðasveitin tók völdin í ríkisútvarpi Máritaníu, auk sjónvarpsstöðva í höfuðborginni Nouakchot, og lokaði fyrir útsendingar. Auk þess héldu hermenn sveitarinnar yfirmönnum hersins föngnum. Þungvopnaðir hermenn gættu ráðuneyta og forsetahallarinnar í höfuðborginni. Helstu götum og leiðum úr borginni var lokað. Taya hefur verið forseti í 20 ár og á þeim tíma hafa nokkrar tilraunir til valdaráns verið gerðar. Vegna einnar slíkrar tilraunar var barist á götum höfuðborgarinnar í nokkra daga árið 2003.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×