Innlent

Íslenskur langferðabíll verður til

Það má heita ævintýralegt að í húsnæði Vagna og þjónustu á Tunguhálsinum í Reykjavík vinni menn myrkranna á milli við að smíða bíl. Og það engan smábíl heldur rútu sem rúmar 21 farþega, ekil og leiðsögumann. Íslendingar hafa ekki verið í fararbroddi bílaframleiðenda í heiminum en reynsla okkar af breytingum jeppa og smíði yfirbygginga á vöruflutngabíla er talsverð. Í þann reynslubanka sækir Ari Arnórsson. "Við eigum mjög færa menn í því sem þarf til að búa til farartæki sem á ekki sinn líka annars staðar í heiminum," segir hann. Ari hefur lengi haft haft áhuga á bílum og ferðalögum og sameinar það tvennt í stóra draumnum sínum sem nú er að verða að veruleika. Og ástæða þess að hann réðist í verkið er tiltölulega einföld. "Ég hef lengi talað um þetta og safnað saman upplýsingum og fyrst enginn annar gerði þetta þá varð ég að gera það sjálfur." Áratugs undirbúningi lauk í maí þegar smíðin sjálf hófst. Unnið er með svokölluð samlokuefni en það er plastefni sem nýtt hefur verið til yfirbygginga vöruflutningabíla hérlendis í á þriðja áratug. En hver var kveikjan að hönnuninni? "Ég vil að ferðafólk geti farið um Ísland, hvernig sem vegirnir eru og notið þess. Ég hef liðið fyrir það í mínu starfi að farþegarnir hafa verið hálf kvaldir af að hristast og hendast til og frá í þeim bílum sem við höfum notað. Kveikjan var semsagt að finna eitthvað betra," segir Ari en hann hefur starfað sem öku- og leiðsögumaður og veit um hvað hann er að tala. Og honum er talsvert niðri fyrir þegar hann talar um málið. "Það er að mínu mati ólíðandi hvernig við förum með okkar verðmætu ferðamenn sem hafa borgað háar fjárhæðir fyrir að ferðast um landið. Ég samþykki ekki að vegirnir séu ónýtir og að það eigi að slétta og malbika alla íslenska vegi, ég tel að farartækin eigi að henta vegunum en ekki öfugt." Ísar R2-bíllinn er byggður ofan á undirvagn sem er af Ford E 450. Hann er hins vegar mikið breyttur og í raun vafamál hvort hann geti ennþá kallast Ford. "Það er allt gert af Íslendingum og þess vegna er þetta íslenskur bíll," segir Ari sem vonast til að ljúka smíðinni í október og geta frumsýnt hann og kynnt fyrir landsmönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×