Erlent

Deilt um Atlantshafsbandalagið

Vera má að Noregur verði fyrsta aðildarríki Atlantshafsbandalagsins sem dregur sig úr aðgerðum þess á meðan þær standa ennþá yfir. Vinstri flokkarnir í Noregi vinna nú hörðum höndum að því að semja nýjan stjórnarsáttmála og hefur þegar komið fram að Jens Stoltenberg, leiðtogi Verkamannaflokksins, telur að Norðmenn eigi að kalla hermenn sína heim frá Írak. Í höfuðstöðvum NATO í Brussel velta menn því hins vegar fyrir sér hvort Norðmenn hyggist jafnframt hætta þátttöku í áætlun bandalagsins um að þjálfa íraskar öryggissveitir. "Verkamannaflokkurinn leggst gegn því að norskir hermenn verði sendir til Íraks eða þjálfunarbúða NATO. Hins vegar teljum við rétt að heimila íröskum öryggissveitum að æfa sig í Jåttå við Stafangur," sagði Marit Nybakk, talsmaður flokksins í varnarmálum í samtali við Aftenposten. Spurð hvort Norðmenn myndu halda áfram að greiða fé til verkefnisins sagði Nybakk það alls óráðið. Málið ætti að skýrast á næstu dögum en fari svo að Norðmenn ákveði að hætta þátttöku í NATO-verkefni á meðan það stendur enn yfir er það í fyrsta sinn sem það gerist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×