Erlent

Marcinkiewicz forsætisráðherraefni

Jaroslaw Kaczynski, formaður pólska íhaldsflokksins Lög og réttlæti sem hlaut flest atkvæði í þingkosningunum um liðna helgi, sagði í gær að hann hygðist tafarlaust ganga til stjórnarmyndunarviðræðna við frjálshyggjuflokkinn Borgaravettvang. Hann tilkynnti jafnframt að forsætisráðherraefni væri ekki hann sjálfur heldur Kazimierz Marcinkiewicz, 45 ára gamall efnahagsmálasérfræðingur flokksins. Endanleg úrslit kosninganna voru kunngjörð í gær. Þegar öll atkvæði höfðu verið talin lá fyrir að Lög og réttæti hefði fengið 26,99 prósent atkvæða en hinn væntanlegi samstarfsflokkur 24,14 prósent. Alls fengu þessir tveir flokkar 288 af 460 þingsætum. Kjörsókn var dræm, aðeins 40,57 prósent. Kaczynski hefur sem leiðtogi stærsta flokksins á þingi tilkall til forsætisráðherraembættisins, en þar sem svo gæti farið að eineggja tvíburabróðir hans Lech sigri í forsetakosningum nú í október, vill hann hlífa eigin landsmönnum og umheiminum fyrir ruglingnum sem það gæti valdið að tvíburar sætu samtímis í æðstu valdaembættum landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×