Innlent

Aksturskilyrði slæm víða um land

Stór fjárflutningabíll fauk út af veginum og valt á hliðina í Svínadal í Dölum í morgun og ekki vildi betur til en svo að lögreglubíll, sem kom á vettvang, fauk líka út af veginum. Vegagerðin og veðurstofan vara við viðsjárverðum akstursskilyrðum víða um land í dag. Tveir menn, sem voru í fjárflutningabílnum slösuðust og voru fluttir á heilsugæslustöðina í Búðardal, en hvorugur þeirra er alvarlega meiddur. Víðar hafa ökumenn lent í vandræðum þótt fréttastofu Bylgjunnar og Stöðvar 2 sé ekki kunnugt um fleiri slys. Það hefur verið bálhvasst á sunnanverðu Snæfellsnesi í morgun og laust fyrir klukkan níu rofnaði raflínan frá Vegamótum yfir Nesið þannig að rafmagnslaust varð í Ólafsvík, á Hellissandi og Rifi. Viðgerðarmenn eru nú á Fróðárheiði við mjög erfið skilyrði að gera við línuna, en dísilrafstöðvar eru keyrðar í Óalfsvík. Þær anna hvergi nærri raforkuþörfinni þannig að rafmagn er skammtað. Á Vestfjörðum er hvassviðri og ófært um Hrafnseyrarheiði og Eyrarfjall og vegagerðarmenn urðu að hætta við mokstur um Klettsháls vegna ofviðris. Lágheiði er ófær fyrir norðan og éljagangur er á norðurleiðinni á Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði. Krapi og hálka eru á Mývatnsheiði og Mývatns- og Mörðudalsöræfum. Á Austurlandi er hálka á Fjarðarheiði og upp í Kárahnjúka. Þá varar Veðurstofan við stormi á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og einnig má búast við hvössum vindhviðum á Kjalarnesi og um landið norðvestanvert, einkum á fjallvegum og sunnanverðu Snæfellsnesi. Og það er líka spáð stormi um allan sjó nema rétt á suðausturmiðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×