Erlent

Ofbeldið verst í þróunarlöndum

Garcia-Moreno. þjóðaheilbrigðisstofnunin kynnti skýrslu sína í gær um heimilisofbeldi.
Garcia-Moreno. þjóðaheilbrigðisstofnunin kynnti skýrslu sína í gær um heimilisofbeldi.

Talið er að 130 milljónir kvenna um allan heim hafi verið umskornar, þar af þrjár milljónir á þessu ári. Stór hluti kvenna sem verða fyrir heimilisofbeldi telur að þær eigi það skilið. Þetta er á meðal niðurstaðna tveggja skýrslna sem út komu í gær.

Kynbundið ofbeldi er ekki nýtt af nálinni en skýrslur sem tvær stofnanir Sameinuðu þjóðanna gáfu út í gær sýna hversu rótgróið það er og hve margháttaðar afleiðingar þess geta verið.

Sú fyrri kemur frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og fjallar um heimilisofbeldi en hina setti Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna UNICEF saman um þá tegund limlestinga sem nefnd er umskurn kvenna.

Telja sig eiga ofbeldið skilið

Í skýrslu WHO er rætt um heimilisofbeldi við 24.000 konur í tíu löndum: Brasilíu, Eþíópíu, Japan, Namibíu, Perú, Samóa, Serbíu, Taílandi, Bangladess og Tansaníu. Þetta er fyrsta skýrsla sinnar tegundar en ekki þótti ástæða til að kanna ástandið í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku þar sem það hefur áður verið gert.

"Heimilið á að vera staður þar sem fólk nýtur friðhelgi. Reynslan sýnir hins vegar að konur eru í meiri hættu heima hjá sér en úti á götu," sagði Henrica Jansen, einn skýrsluhöfunda, á blaðamannafundi í Genf í gær.

Þetta eru orð að sönnu því tíðni heimilisofbeldis er geigvænleg, ekki síst í svonefndum þróunarlöndum. Þannig er sjö af hverjum tíu konum í Eþíópíu misþyrmt á heimilum sínum á meðan 15 prósent japanskra kvenna lýsa slíkri upplifun.

Til samanburðar má nefna að fyrri rannsóknir sýna að fimmtungur bandarískra og sænskra kvenna hefur sætt barsmíðum eða öðru ofbeldi og 23 prósent breskra og kanadískra kvenna.

Höfundar skýrslunnar telja að skýringin á þessum mun á milli fátækari og ríkari heimshluta liggi meðal annars í því að konur í iðnríkjunum eigi auðveldara með að losna úr samböndum þar sem þeim er misþyrmt en konur í þróunarlöndunum.

Í þessu sambandi er ekki síður ískyggilegt að stór hluti kvenna sem verða fyrir misþyrmingum telur slíkt ásættanlegt og eru konur í fátækari ríkjum heims frekar þessarar skoðunar.

78 prósent eþíópískra kvenna telja sig eiga ofbeldið skilið og fjórar af hverjum tíu konum frá Bangladess telja að það sé réttur eiginmannsins að lemja þær.

"Maðurinn minn misþyrmir mér og nauðgar og ég verð bara að hlýða. Áður en þið tókuð við mig viðtal hafði ég ekki hugsað út í þetta, ég hélt að svona ætti þetta einfaldlega að vera, að svona hegðuðu eiginmenn sér," sagði ein kvennanna frá Bangladess.

Sérstaka athygli vekur að heilsufarsvandamál sem ofbeldinu fylgja, bæði andleg og líkamleg, eru þau sömu, óháð því hvar í veröldinni fórnarlömbin búa eða hver efnahagur þeirra er.

Talið er að konur sem sæta misþyrmingum séu í tvöfalt meiri hættu á að missa heilsuna, þróa með sér geðsjúkdóma og jafnvel íhuga sjálfsmorð en þær sem búa við frið á heimilum sínum.

"Hvort sem þú ert kona á framabraut í Sao Paolo eða býrð í sveitahéruðum Eþíópíu eru tengslin á milli ofbeldis og bágrar heilsu þau sömu," segir Claudia Garcia-Moreno hjá WHO.

Þrjár milljónir umskornar í ár

Myndin sem dregin er upp í UNICEF-skýrslunni er ekki mikið fegurri. Þar er talið að þrjár milljónir kvenna séu umskornar hvert einasta ár, flestar þeirra í Afríku og Mið-Austurlöndum. Áður hafði verið áætlað að tveimur milljónum kvenna væri misþyrmt árlega með þessum hætti en skilvirkari upplýsingaöflun sýnir að fjöldinn er mun meiri.

Ekki er þó unnt að meta hversu margar deyja í kjölfar þessarar lífshættulegu aðgerðar, þar sem ytri kynfæri konunnar eru hreinlega skorin í burtu.

"Í þeim 28 löndum Afríku sunnan Sahara og Mið-Austurlanda þar sem umskurn kvenna er stunduð hafa 130 milljónir kvenna orðið að gangast undir þessa aðgerð," segir í fréttatilkynningu UNICEF um málið.

Ástandið er sérstaklega slæmt í Nílardalnum, en í Egyptalandi eru 97 prósent giftra kvenna umskornar og 80 prósent kynsystra þeirra í Eþíópíu. Í Jemen og Óman, þar sem fjöldi egypskra farandverkamanna býr, er hlutfall umskorinna kvenna jafnframt afar hátt.

Umskurn er félagsleg frekar en trúarleg athöfn og telur UNICEF erfitt að uppræta þessa tegund ofbeldis sökum þess hversu rótgróin hún er í þeim samfélögum þar sem henni er beitt.

"Stúlkur verður að umskera til að vernda heiður þeirra og fjölskyldna þeirra, sérstaklega nú á dögum þegar þær fara að heiman til háskólanáms og geta því lent í alls kyns óvæntum aðstæðum," sagði kona frá Suður-Egyptalandi í samtali við einn höfund skýrslunnar.

Því telur UNICEF að boð og bönn nægi ekki til að koma í veg fyrir umskurn kvenna heldur verði að koma á hugarfarsbreytingu hjá íbúum þessara landa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×