Erlent

Annað morðið í mánuðinum

Stjórnarandstæðingurinn George Hawi, leiðtogi líbanskra kommúnista, beið bana í bílsprengjuárás í gær. Tilræðið kemur aðeins tveimur dögum eftir að stjórnarandstaðan í Líbanon hafði betur í þingkosningum gegn sitjandi ríkisstjórn stjórninni en hún hefur verið hliðholl stjórnvöldum í Sýrlandi. Sýrlenska ríkisstjórnin dró herlið sitt nýlega frá Líbanon en reynir enn að halda pólitískum áhrifum í landinu. Sprengjan sem grandaði Hawi virðist áþekk þeirri sem and-sýrlenski blaðamaðurinn Samir Kassir var drepinn með í upphafi mánaðarins. Stjórnarandstaðan kennir sýrlensku leyniþjónustunni um bæði morðin, en hún fullyrðir að fulltrúar hennar starfi enn í Líbanon þótt herinn sé farinn úr landi. Sýrlendingar hafa neitað allri aðild að tilræðunum. George Hawi gagnrýndi sýrlensk áhrif oft harkalega á opinberum vettvangi. Hann var fyrrverandi formaður kommúnistaflokksins og einn af helstu leiðtogum í borgarastyrjöldinni 1975 til 1990 þar sem hann barðist með múslimum og palestínskum skæruliðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×