Erlent

Sænskur gísl frelsaður í Írak

Sænskur gísl sem verið hefur í haldi mannræningja í Írak í rúma tvo mánuði hefur verið frelsaður. Frá þessu greindi utanríkisráðuneyti Svíþjóðar í dag. Ekki hafði verið greint frá því að manninum, hinum 63 ára Ulf Hjertström, hefði verið rænt en hann segist í samtali við Aftonbladet hafa verið í haldi frá því á föstudaginn langa. Hjertström, sem búið hafði einn í Bagdad í 14 ár, segir að sér hafi verið haldið í kjallara húss í borginni og í prísundinni hafi hann séð átta gísla tekna af lífi. Aftonbladet greinir frá því að sænsk yfirvöld hafi fengið að vita að hann væri í haldi uppreisnarmanna um hálfum mánuði eftir að honum var rænt og hófust þá samningaviðræður við mannræningjana. Þær sigldu hins vegar í strand og því báðu sænsk stjórnvöld leyniþjónustu Breta að taka við málinu sem hún og gerði. Hjertström var svo frelsaður 30. maí síðastliðinn og er nú kominn til Svíþjóðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×