Erlent

Berjast gegn veiðum Japana

Andstæðingar hvalveiða berjast nú fyrir því að fá Japana til þess að láta af áformum um að tvöfalda hvalveiðar í vísindaskyni. Japanar tilkynntu á ráðstefnu Alþjóðahvalveiðiráðsins í gær að þeir hygðust auka árlegar veiðar á hvölum í vísindaskyni um helming frá og með næsta ár, og hafa þau áform vakið mikla úlfúð hjá andstæðingum hvalveiða. Fastlega er búist við að Ástralir leggi í dag fram ályktun þess efnis að Japanar hætti við þessi áform og vitað er að margar þjóðir í hvalveiðiráðinu munu styðja slíka ályktun. Fulltrúar Ástrala í hvalveiðiráðinu segja að mest af hvalnum sem Japanar veiði endi í fiskbúðum eða á veitingastöðum og það sé einungis fyrirsláttur að veiða eigi hvalinn í vísindaskyni. Þó að ályktunin fengist samþykkt gætu Japanar hins vegar hæglega hunsað hana enda er það ekki í höndum ráðsins að ákveða hvalveiðar einstakra þjóða í vísindaskyni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×