Innlent

Atvinnurekendur sögðu nei við ASÍ

Samtök atvinnulífsins hafa hafnað tillögum Alþýðusambands Íslands um tveggja prósenta launahækkun sem lögð var fram í viðræðum forsendunefndar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Í henni eiga sæti tveir fulltrúar ASÍ og SA sem eru sammála um að forsendur samninganna séu brostnar.

Fulltrúar ASÍ hafa sagt að búast megi við að þeim verði sagt upp 10. desember nái forsendunefndin ekki samkomulagi á næstunni. Tillögur ASÍ miðast við þær verðbólguforsendur sem síðustu kjarasamningar voru gerðar út frá. "Við höfum talið að þar sem markmið Seðlabankans og forsendur kjarasamninga gera ráð fyrir 2,5 prósenta verðbólgu en verðbólgan er í raun 4,5 prósent sé það nokkuð klárt hver munurinn er," segir Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ. "Að öðru leyti er þetta mál til úrlausnar," segir hann. "Það er þó ljóst að ekki hefur verið vilji af hálfu atvinnurekenda til að semja og stefnir í að ekki náist saman að óbreyttu," segir Gylfi.

Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, segir varhugavert að horfa dómgreindarlaust og vélrænt á verðbólgutölur. "Við semjum ekki um verðbólgu eða kaupmátt. Við semjum um tilteknar launahækkanir," segir Ari. "Kaupmáttur er í sögulegu hámarki á Íslandi. Við teljum því ekki forsendur til þess að vera með einhver ýktari viðbrögð nú en var þá af svipuðu tilefni. Það er alls ekki sanngjarnt, þegar horft er til eðlis verðbólgunnar, að afgreiða verðbólguna sem frádrátt frá kaupmætti almennings. Þrír fjórðu hennar eru vegna fasteignaverðs, en einnig vegna aukinnar neyslu og betri lífsgæða," segir Ari.

Hann segir ekki útilokað að samið verði um hækkun launa þótt það verði ekkert í líkingu við tillögur ASÍ. "Þetta snýst um kostnaðinn fyrir atvinnulífið. Það er alveg ljóst að svigrúmið til breytinga er ekki af þeirri stærðargráðu sem þarna er slegið fram. Slík nálgun fæli að auki í sér afturhvarf til víxlhækkunar launa og verðlags," segir Ari. "Það væri hins vegar mjög slæmt fyrir almenning í landinu ef samningar næðust ekki og yrði með því brugðið frá þeirri sátt sem hefur verið í landinu um árabil og ekki víst að næðist saman um langan tíma aftur," segir Ari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×