Erlent

Bandaríkin viðurkenna vanhelgun

Bandaríkjaher greindi frá því í gær að rannsókn hefði leitt í ljós að í fimm tilvikum hefði Kóraninn, helgirit múslima, verið vanhelgaður í fangabúðunum við Guantanamo-flóa á Kúbu. Engar sannanir fundust hins vegar fyrir því að honum hefði verið sturtað niður um klósettið. Yfirmaður fangelsins segir að atvikin hafi ekki brotið í bága við reglur sem giltu þegar þau áttu sér stað, og hann segir tvö þeirra hafa stafað af mistökum en ekki ásetningi. Eitt þeirra átti sér stað í yfirheyrslu. Tugþúsundir múslima hófu mótmæli í kjölfar fréttanna í Egyptalandi, Pakistan, Jórdaníu, Líbanon og Malasíu. Mótmælendur kröfðust þess að Bandaríkin bæðust afsökunar og refsuðu þeim sem ábyrgð bæru á vanhelguninni. Í Pakistan voru víða brenndar eftirlíkingar af Bush Bandaríkjaforseta og í Líbanon kyrjuðu mótmælendur að Bandaríkin væru "hinn stærsti Satan". Bandaríkjaher segist engar sannanir hafa fundið fyrir því að Kóraninum hafi verið sturtað niður um klósett líkt og greint var frá í Newsweek á dögunum en síðar dregið til baka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×