Erlent

Kosningar án eftirlitsmanna

Stjórnvöld vonast til þess að kosningarnar sem haldnar voru í Tsjetsjeníu í gær munu færa stríðshrjáð héraðið einu þrepi nær stöðugleika og friði. Þó er ljóst að fáir heimamenn líta kosningarnar alvarlegum augum.

Öllum aðskilnaðarsinnum er bannað að bjóða sig fram, en 350 frambjóðendur takast á um þingsætin 58. Auk þess koma engir eftirlitsmenn frá Evrópusambandinu og Evrópuráðinu að kosningunum. Um 600.000 manns eru á kjörskrá í héraðinu, þar sem vatn og rafmagn er oft erfitt að fá, og gríðarlegt atvinnuleysi ríkir.

Auk þess er talið að um 100.000 óbreyttir borgarar, hermenn og uppreisnarseggir hafi látist í stríðunum tveimur sem herjað hafa í héraðinu síðan árið 1994, þegar rússneskir hermenn fyrst bældu niður stjálfstæðisbaráttu heimamanna. Þrátt fyrir ofbeldishótanir og fjölmarga skotbardaga víða um héraðið síðustu vikurnar, voru kjörstaðir opnaðir án teljandi vandræða í gærmorgun, en um 24.000 hermenn og lögreglumenn gættu kjörstaðanna 430.

Búist er við að stuðningsflokkur Vladimírs Pútín Rússlandsforseta muni sigra í kosningunum, en flokkurinn Sameinað Rússland styður einnig Ramzan Kadyrov, forystumann sambandssinna Tsjetsjena. Ef Sameinað Rússland vinnur má gera ráð fyrir að Kadyrov verði næsti forseti Tsjetsjeníu, en hann ríkir yfir 5.000 manna einkaher sem illræmdur er fyrir grimmd og mannréttindabrot.

Auk þess á hann stóran hlut í olíuborholum héraðsins. Kadyrov er sonur Akhmads Kadyrovs fyrrverandi forseta Tsjetsjeníu sem aðskilnaðarsinnar réðu af dögum í Grozny í fyrra, sjö mánuðum eftir hann tók við forsetaembættinu. Fjölmennt rússneskt hernámslið er í Tsjetsjeníu og berast sögur um hryðjuverk þessara hermanna í héraðinu. Þeir eru sagðir fara ölvaðir um héraðið og myrða fólk af litlu sem engu tilefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×