Erlent

Mengað vatn til Síberíu

Í gær var opnað fyrir drykkjarvatn úr kínversku ánni Songhua í norðausturhluta Kína, fimm dögum eftir að yfirvöld lokuðu fyrir neysluvatn 3,8 milljóna íbúa borgarinnar Harbin vegna mengunar.

Mengunin var tilkomin vegna sprengingar í efnaverksmiðju í Jilin í Kína um miðjan þennan mánuð, sem olli því að 100 tonn af bensóli bárust í ána, helstu uppsprettu vatns í borginni. Íbúar Harbin og nágrennis þvo sér upp úr vatninu og drekka það og bændur nota vatnið til áveitu. Bensólið í vatninu er þrjátíu sinnum yfir það sem telst vera öruggt, en bensól er litlaus og rokgjarn vökvi sem er notaður í efnaiðnaði.

Stærsta olíufyrirtæki Kína hefur beðist afsökunar á sprengingunni sem olli menguninni. Samkvæmt upplýsingum frá kínverskum yfirvöldum hefur enginn veikst eftir að hafa innbyrt mengað vatn.

Rússar hafa lýst yfir áhyggjum vegna mengunarinnar og kanna þessa dagana hvað hægt sé að gera svo mengun frá efnaverksmiðjunni berist ekki til Síberíu í byrjun desember, en bensólið liggur í um 80 kílómetra löngum hluta árinnar og færist mengunin sífellt nær Rússlandi. Kínversk yfirvöld segjast hafa sett hreinsibúnað í ána.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×