Erlent

Áfengisvandinn fer vaxandi

Miðborg Kaupmannahafnar. Borgaryfirvöld hyggjast auka fræðslu meðal barþjóna og dyravarða til að koma í veg fyrir ofdrykkju gesta.
Miðborg Kaupmannahafnar. Borgaryfirvöld hyggjast auka fræðslu meðal barþjóna og dyravarða til að koma í veg fyrir ofdrykkju gesta.

Fjöldi kráa, kaffihúsa og veitingastaða með vínveitingaleyfi í Kaupmannahöfn hefur aukist um fimmtán prósent síðasta áratug. Borgaryfirvöld vilja nú stemma stigu við þessari þróun að því greint er frá í dagblaðinu Berlingske Tidende.

Ástæðan er meðal annars sú að áfengisvandi meðal ungra borgarbúa hefur farið vaxandi hin síðustu ár. Margir veitingamenn hafa brugðið á það ráð að selja áfengi ódýrt á ákveðnum tímum dags vegna ört harðnandi samkeppni. Það er talið hafa ýtt undir drykkju þeirra yngstu. Meðal þess sem borgaryfirvöld setja á stefnuskrána er að auka fræðslu meðal barþjóna og dyravarða með það að markmiði að koma í veg fyrir ofdrykkju.

Haft er eftir formanni samtaka veitingahúsaeigenda í blaðinu að hann telji ekki að fækkun vínveitingaleyfa minnki drykkju enda muni þeir sem vilja drekka færa sig á þá staði sem eru opnir. Talsmenn borgaryfirvalda segja hins vegar að alþjóðlegar rannsóknir sýni að sterk tengsl séu á milli fjölda vínveitingastaða og drykkju og því borgi sig að fækka vínveitingahúsum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×