Erlent

Vilja rannsókn á vanhelgun Kórans

Alþjóðleg samtök múslíma í Sádi-Arabíu hafa farið fram á það við bandarísk stjórnvöld að þau rannsaki hvort Kóraninn, hið helga rit múslíma, hafi verið vanhelgaður í fangabúðunum við Guantanamo-flóa. Samtökin hafa ritað Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, bréf þessa efnis þar sem þau lýsa yfir undrun og ótta vegna frétta af málinu og segja að þær gefi öfgamönnum úr röðum múslíma ástæðu til að beita ofbeldi. Þar eru bandarísk stjórnvöld einnig hvött til að draga hina seku fyrir dóm til þess að friða hinn íslamska heim og til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Það var bandaríska tímaritið Newsweek sem greindi frá því á mánudaginn var að menn sem störfuðu við yfirheyrslur í fangabúðunum hefðu vanvirt Kóraninn með því að setja eintök af honum á salernisskálar og að sturta að minnsta kosti einu eintaki niður. Fréttir af þessu háttalagi vöktu mikla reiði í Afganistan og hafa 16 manns látist á síðustu dögum í mótmælum gegn Bandaríkjunum þar í landi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×