Erlent

Flugskattur til hjálpar fátækum

Evrópusambandið veltir nú fyrir sér hvernig hægt sé að leggja sérstakan skatt á flugfarþega sem yrði notaður til aðstoðar í fátækari ríkjum heimsins. Það var Jacques Chirac, forseti Frakklands, sem stakk upp á þessum skatti og Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, studdi hugmyndina. Evrópusambandið hefur nú fengið skýrslu um mögulega útfærslu. Þar eru meðal annars nefndir þeir möguleikar að leggja 850 króna skatt á hvern flugmiða sem seldur er í flug innan sambandsríkjanna og 2500 króna skatt á farmiða út úr lofthelgi þeirra. Einnig er nefndur sá möguleiki að leggja 28 þúsund króna skatt á hverja þúsund lítra af eldsneyti. Þessa peninga á svo að nota í þróunaraðstoð í fátækum löndum. Ekki eru öll aðildarríki Evrópusambandsins hrifin af þessum hugmyndum. Fjármálaráðherra Austurríkis sagði á fundi ESB í Lúxemborg í dag að með þessu væri verið að leggja enn frekari byrðar á neytendur og að Austurríki myndi ekki taka þátt í því. Finnar, Svíar og Grikkir hafa lýst efasemdum um þessa framkvæmd. Engu að síður er búist við að yfirstjórn Evrópusambandsins muni halda þessari skattlagningu til streitu og reyna að finna einhverjar leiðir til þess að koma henni á.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×