Innlent

Gríðarlegar breytingar í Sandvík

Sandvíkursvæðið, þar sem hluti stórmyndar Clints Eastwood verður myndaður, hefur tekið gífurlegum breytingum á aðeins örfáum dögum. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort hægt verði að skila svæðinu eins og það var áður en tökur hófust. Umhverfisverndarsinnum blöskrar meðferð aðstandenda kvikmyndarinnar Flags of Our Fathers á landsvæðinu í Sandvík þar sem tökur fara nú fram. Framleiðendur myndarinnar hafa brennt gróður, munu reisa 300 metra langa og fjögurra og hálfsmetra háa sandöldu á ströndinni, grafa holur til að líkja eftir sprengjugígum eftir fallbyssuárásir og fleira. Allt í samráði við bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ. Stefán Benediktsson frá Umhverfisstofnun og dr. Andrés Arnalds frá Landgræðslu ríkisins voru mönnunum innan handar við upphaf verkefnisins og er fulltrúi frá Umhverfisstofnun á svæðinu við eftirlit með tökustað. Samningur við Landgræðslu ríkisins um uppgræðslu svæðisins hljóðar upp á tæpar 11 milljónir króna en sumir telja ólíklegt að svæðinu verði hægt að skila í því ásigkomulagi sem það var áður en framkvæmdir hófust. Gunnþór Ingason sér meðal annars um helgihald í Krísuvíkurkirkju og óttast sögumengun á þessum slóðum. Honum þykir miður að flytja skeflingarmyndir úr síðari heimsstyrjöldinni, myndir manndrápa og hörmunga, inn í fagra mynd Krísuvíkur og sögu hennar og náttúru. Gunnþór telur rétt að fara varlega í tengslum við náttúruverðmæti og menningarminjar og sömuleiðis söguleg verðmæti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×