Innlent

Björguðu bát með snarræði

Snarræði bátsverja kom í veg fyrir að hraðfiskibáturinn Eyjólfur Ólafsson GK sykki í nótt. Þeir brunuðu beina leið upp í fjöru. Leki kom að bátnum um klukkan hálffjögur í nótt og óskuðu þá bátsverjar eftir aðstoð björgunarskips. Allt stefndi í að báturinn myndi sökkva og gripu þá bátsverjar til þess ráðs að sigla honum á fullri ferð upp í fjöruna í Aðalvík þar sem hann strandaði. Gott veður var á svæðinu og ekkert brim. Um hálfsex kom björgunarskipið Gunnar Friðriksson að og bjargaði áhöfninni um borð. Pálmi Stefánsson, skipstjóri á Gunnari, segir mennina aðeins hafa verið orðna kalda en ekkert hafi amað að þeim. Björgunarmenn könnuðu ástand bátsins sem var talsvert laskaður og ákváðu að reyna að ná honum á flot. Taug var komið í bátinn og náðist hann út á flóðinu um níu í morgun. Dælum var komið um borð og svo lagt af stað í höfn. Pálmi segir að settir hafi verið belgir og flotholt í lúkarinn ásamt björgunarbáti fiskibátsins til þess að halda flotinu í honum. Hann hafi svo verið dreginn aftur á bak til Bolungarvíkur. Gatið á bátnum var af stærri gerðinni og því ljóst að bátsverjarnir tveir sluppu með skrekkinn. Ekki er vitað hvernig leki kom að bátnum en grynningar eru víða undan ströndum í Aðalvík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×