Innlent

Deilt um byggðakvóta

"Við getum ekki lengur sætt okkur við eignaupptöku sem sjávarútvegsráðherra stendur fyrir," segir Magnús Kristinsson, útvegsmaður í Vestmannaeyjum. Magnús íhugar að stefna sjávarútvegsráðherra vegna úthlutunar byggðakvóta sem kynnt var í síðustu viku. Vestmannaeyingum var þá ekki úthlutað neinum byggðakvóta, en alls var 4.010 tonnum úthlutað til byggðarlaga sem lent hafa í vanda. Þau bæjarfélög sem mestan byggðakvóta fengu eru Súðavík, Sigufjörður og Stykkishólmur. "Það er alveg ljóst að nú látum við sverfa til stáls," segir Magnús. "Það er ekkert annað en hrein og klár eignaupptaka þegar eignir manns eru teknar og þeim deilt út til annarra." Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, kveðst reikna með því að höfðað verði mál gegn ríkinu vegna byggðakvótans. "Menn vilja láta á það reyna hvort standist gagnvart eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar að taka hluta kvóta sem menn hafa keypt og úthluta honum með þessum hætti," segir Friðrik. "Við teljum að ef menn hafa keypt sér rétt til þess að nýta ákveðinn hluta fiskistofna eigi þeir réttinn þar með og að hann verði ekki frá þeim tekinn." Friðrik segir sambandið sjálft ekki ætla að reka málið heldur komi það í hlut einnar útgerðar að höfða prófmál, í samstarfi við sambandið. "Útvegsmenn sem sæti eiga í stjórn samtakanna hafa ákveðið að stuðla að því að þessi leið verði farin," segir hann. "Úthlutanir af þessu tagi eru alltaf mjög umdeilanlegar," segir Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra. "Þær eru hins vegar í samræmi við lög um stjórn fiskveiða og þar hefur alltaf verið gert ráð fyrir slíkum úthlutunum." Árni segist ekki í vafa um að úthlutanirnar standist lög, ella væri ekki staðið að þeim með þessum hætti. Öllum sé hins vegar heimilt að bera stjórnvaldsákvarðanir undir dómstóla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×