Erlent

Skorað á Írana

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin IAEA skoraði í gær á Írana að láta af tilraunum til að auðga úran. Íranar virðast ætla láta áskorunina sem vind um eyru þjóta. Stjórn IAEA hefur setið á rökstólum undanfarna daga og reynt að koma sér saman um hvernig taka beri á úranvinnslu Írana sem hófst í vikunni. Í gær sendi stjórnin svo frá sér ályktun þar sem "miklum áhyggjum" var lýst vegna vinnslunnar. Í ályktun IAEA segir að "fjölmörg ágreiningsefni sem snerta kjarnorkuáætlun Írana eru enn óleyst og stofnunin treystir sér því ekki til að lýsa því yfir að engin kjarnakleyf efni séu í Íran sem ekki hefur verið gerð grein fyrir". Ekkert var þó minnst á að kæra Írana til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem hefur vald til að beita landið viðskiptaþvingunum. Í staðinn var Mohamed ElBaradei, framkvæmdastjóra IAEA, falið að vinna nákvæma skýrslu um framferði Írana og skila um það skýrslu 3. september næstkomandi. Íranar létu sér fátt um gagnrýni IAEA finnast. "Íran mun ekki beygja sig. Íran verður framleiðandi kjarnorkueldsneytis og eftir áratug seljum við það líka," sagði Sirus Nasseri, erindreki þeirra á fundinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×