Erlent

Aðeins kröfur en ekki hótanir

MYND/AP
Evrópusambandið krefst þess að Íranar hætti starfsemi í kjarnorkuverum landsins en eitt þeirra var endurræst í gær. Engu er hins vegar hótað verði ekki brugðist við kröfunum. Drög að ályktun hafa verið kynnt hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni þar sem þess er krafist að Íranar loki aftur kjarnorkuverinu í Isfahan sem var endurræst í gær. Enn fremur er þess krafist að fulltrúar stofnunarinnar gangi úr skugga um að Íranar hlíti tilmælum stofnunarinnar. Það er Evrópusamabandið með Breta, Frakka og Þjóðverja í broddi fylkingar sem vill að Alþjóðakjarnorkumálastofnunin þrýsti á Írana er ljóst er að Bandaríkjamenn eru á sömu línu. Í ljósi yfirlýsinga í aðdraganda atburða gærdagsins virðist yfirlýsingin hins vegar hálfbitlaus. Því er til dæmis ekki hótað að málinu verði vísað til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem gæti sett viðskiptabann á Íran. Bregðist Íranar ekki við tilmælum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar hafa höfundar ályktunartillögunnar látið að því liggja að málinu verði vísað til Öryggisráðsins í september. Íranar hafa í raun þegar svarað umkvörtunum stofnunarinnar og segja það út í hött að loka kjarnorkuverinu aftur. Í raun hafi árangurslausar viðræður við Evrópusambandið undanfarna mánuði sýnt það betur en nokkuð annað að það hafi ekki skilað Írönum neinu að loka verinu til að byrja með.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×