Erlent

Tímenningum verður vísað úr landi

Tíu útlendingar sem sagðir eru ógna öryggi breska ríkisins voru í morgun handteknir í Bretlandi. Þeim verður vísað úr landi en mannréttindasamtök fordæma það. Lögregluyfirvöld á Bretlandi gerðu í morgun rassíu og handtóku mennina tíu í Leicestershire, London, Luton og miðhéruðum Englands. Mennirnur munu vera frá Jórdaníu, Líbanon, Alsír og fleiri Norður-Afríkuríkjum, en yfirvöld hafa ekki viljað gefa upp hverjir þeir eru. Talið er að jórdanski klerkurinn Abu Qatada, sem starfað hefur á Bretlandi og hefur verið undir lögreglueftirliti, sé þeirra á meðal. Spænskur rannsóknardómari heldur því fram að hann hafi verið andlegur leiðtogi hryðjuverkamannanna sem gerðu árásirnar 11. september 2001 og bresk yfirvöld segja hann hættulegan. Charles Clarke, innanríkisráðherra Bretlands, segir þetta árangur margra mánaða vinnu sem leitt hafi til samkomulags við þau ríki sem mennirnir koma frá. Þeim verði vísað frá Bretlandi en stjórnvöld í heimalöndunum hafi heitið því að beita mennina ekki harðræði. Flestir komu þeir til Bretlands sem flóttamenn. Í síðustu viku greindi bresk stjórnvöld frá því að til stæði að vísa úr landi öfgafullum íslamistum sem talið væri að hvettu til hryðjuverka eða lofuðu þá sem stæðu fyrir þeim. Aðgerðirnar eru afleiðing hryðjuverkaárásanna í Lundúnum en mikill þrýstingur hefur verið á bresk stjórnvöld að grípa til aðgerða gegn þessum harðlínumönnum. Forsvarsmenn mannréttindasamtaka eru þó ekki sannfærðir og draga í efa að óhætt sé að vísa fólki til landa eins og Jórdaníu. Talsmaður Amnesty International segir samningana einskis virði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×