Erlent

Hafðist við á flugvelli í eitt ár

Fyrrverandi Keníabúi, sem hafðist við í meira en eitt ár á flugvellinum í Naíróbó, fékk breskan ríkisborgararétt í morgun. Maðurinn, Sanjay Shah, var viðstaddur sérstaka athöfn í breska sendiráðinu í Naíróbí og fær hann afhent breskt vegabréf innan viku. Fyrir rúmu ári var Shah meinuð innganga í Bretland en hann hafði meðferðis vegabréf sem gerði honum einungis kleift að dvelja í landinu í nokkra mánuði. Hann hafði þá þegar afsalað sér kenískum ríkisborgararétti og hafði því ekkert ríkisfang þegar hann komst ekki til Bretlands. Shah dvaldi af þeim sökum í limbói á alþjóðaflugvellinum í Naíróbí í þrettán mánuði. Hann komst af allan tímann með því að sníkja sér mat á veitingastöðum á flugvellinum og þrífa sig á salernum þar. Shah fagnnaði því innilega þegar honum var tjáð að hann fengi loks breskt vegabréf og ætlar hann að fara, ásamt eiginkonu sinni og syni, til Bretlands um leið og hann fær vegabréfið í hendur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×