Innlent

Stefnir í neyðarástand

Neyðarástand er að myndast á elliheimilum landsins vegna manneklu. Ástæðan er einföld. Launin eru of lág og leita menn í auknum mæli í önnur störf. Hjúkrunarforstjóri Eirar segir þörf á úrlausnum og það strax. Illa gengur að manna stöður á elli- og hjúkrunarheimilum landsins og hefur þurft að stöðva nýjar innlagnir á Hrafnistu í Reykjavík og á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. Stjórnendur segja að neyðarástand muni skapast ef ekki fæst fólk til starfa fljótlega en þessar stofnanir fá lítil viðbrögð við auglýsingum. Ástæðan er einföld, launin eru léleg. Birna Svarvarsdóttir, hjúkrunarforstjóri á Eir, segist ekki enn hafa þurft að stöðvar innlagnir en mannekla sé vissulega til staðar. Þeir starfsmenn sem sagt hafi upp að undanförnu segi henni að þeim hafi verið boðin hærri laun á öðrum vettvangi. Birna segir nauðsynlegt að hækka laun starfsfólksins. Hún segir umönnunarstörf lítið metin miðað við þær kröfur sem gerðar eru til starfsins. Víða er reynt að bjarga málum með því að fá starfsfólk til að koma fyrr úr fríi eða taka að sér aukavaktir en hjúkrunarforstjórar hafa margir hverjir áhyggjur af því að álag á starfsfólk sé að verða of mikið. Birna segir opinberar stofnanir hreinlega ekki samkeppnishæfar við almennan markað þegar kemur að launakjörum. Hendur forsvarsmanna elli- og hjúkrunarheimila séu bundnar og þeir greiði þau laun sem rúmist innan kjarasamninga, en þau virðist ekki duga. Yfir helmingur starfsmanna Eirar vinnur við umönnun og hefur um 105 þúsund krónur á mánuði í grunnlaun. Hrafnista hefur brugðið á það ráð að auglýsa eftir fólki á besta aldri, sem er ekki lengur á almennum vinnumarkaði, í umönnunarstörf. Engar kröfur eru gerðar um menntun eða starfsreynslu en um sé að ræða góða lausn á erfiðu máli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×