Erlent

Gróðurhúsalofttegundir forða ísöld

Bandarískur vísindamaður segir að ef ekki væri fyrir gróðurhúsalofttegundirnar, væri jörðin á leið inn í nýja ísöld og jöklar farnir að leggja undir sig norðurhvel jarðar. William F. Ruddiman er prófessor við Virginíuháskóla, í Bandaríkjunum. Hann hefur sett fram þá kenningu að maðurinn hafi verið farinn að hafa áhrif á loftslag jarðarinnar löngu fyrr en talið hefur verið. Hingað til hefur verið miðað við iðnbyltinguna sem hófst fyrir 150 til 200 árum. Rudiman telur að ef forfeður okkar hefðu ekki byrjað að fella skóga og rækta jörðina fyrir áttaþúsund árum, væri meðal lofthiti jarðarinnar að meðaltali tveim gráðum lægri, en hann er í dag. Þegar kaldast var á síðustu ísöld, fyrir tuttugu þúsund árum, var meðal lofthiti jarðarinnar fimm gráðum lægri en hann er í dag. Ruddiman segir að ef ekki væri fyrir gróðurhúsaáhrifin væri jörðin því á hraðri leið inn í nýja ísöld, og jöklar byrjaðir að leggja undir sig norðurhveli harðar. Danski ískjarnasérfræðingurinn Jörgen Peder Steffensen, við háskólann í Kaupmannahöfn, segir að ýmislegt bendi til þess að Rudiman hafi rétt fyrir sér, að einhverju leyti. Nýjustu rannsóknir á ískjörnum frá Suðurpólnum og Grænlandi bendi til þess að maðurinn hafi byrjað að hafa áhrif á loftslag jarðarinnar miklu fyrr en áður var talið. Allavega hafi það verið þegar á miðöldum, fyrir um eittþúsund árum síðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×