Erlent

Öflugir jarðskjálftar í Kína

Fjórtán manns létu lífið í jarðskjálfta í Kína í nótt. Jarðskjálftinn varð rétt fyrir klukkan níu í morgun að staðartíma og mældist hann 5,7 á Richter.

Fjórtán manns létu lífið og um fjögur hundruð slösuðust. Átta þúsund og fimm hundruð íbúðir gereyðilögðust og hundrað og þrjátíu þúsund íbúðir skemmdust. Yfirvöld fluttu fjögur hundruð og tuttugu þúsund manns í burtu af mesta skjálftasvæðinu í varúðarskyni. Tuttugu mínútum eftir fyrsta skjálftann komu tveir öflugir eftirskjálftar. Einn þeirra sem létu lífið var smiður sem var að vinna við byggingu og féll við skjálftann.

Á skjálftasvæðunum er ekki nema átta stiga hiti að nóttu en þó er talið víst að fjöldi manns muni sofa undir berum himni. Margir eru hræddir við að fara inn í byggingar sem geta hrunið þá og þegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×