Erlent

Öngþveiti í Evrópu vegna vetrarveðurs

Snjór í Frankfurt. Drengur í vetrarklæðum gengur eftir snævi þöktu engi með háhýsin í miðborg Frankfurt am Main í baksýn í gær.
Snjór í Frankfurt. Drengur í vetrarklæðum gengur eftir snævi þöktu engi með háhýsin í miðborg Frankfurt am Main í baksýn í gær.

Margur meginlandsbúinn var óviðbúinn er vetrarveðrið skall á. Þýska lögreglan sagði ótal árekstra hafa orðið á fimmtudagskvöld og föstudagsmorgun.

Mörg dæmi væru um nokkurra klukkustunda umferðarteppur vegna árekstra; vörubíla sem lentu þversum eða ultu í hálkunni á hraðbrautum, fjöldaárekstra fólksbíla, útafaksturs og fleiri slíkra hálkuóhappa. Banaslys varð er sendibíll og vörubifreið skullu saman á þjóðvegi í Hessen.

Að sögn lögreglu gerði það illt verra hve margir ökumenn óku enn á sumardekkjum. Á alþjóðaflugvellinum í Frankfurt am Main, fjölfarnasta flugvellinum á meginlandinu, urðu seinkanir á 87 flugleiðum eða þeim var alveg aflýst.

Verkfall á Ítalíu olli aukatruflunum á flugumferð. Á meðaldegi fara á bilinu 1.300 til 1.400 flugvélar um Frankfurt-flugvöll á sólarhring. Svipaða sögu var að segja af öðrum helstu flugvöllum meginlandsins, svo sem Schiphol í Hollandi.

Kona í tékkneska bænum Trest varð úti í fyrrinótt, en þar féll hitastigið í 10 gráðu frost.

Í Austurríki var snjókoman hins vegar mörgum fagnaðarefni, enda opna flestir helstu vetrardvalarstaðirnir í austurrísku Ölpunum nú um helgina.

Í Sviss var jafnfallinn snjór á bilinu 5 til 15 sentímetrar á láglendi sem olli miklum umferðartöfum á vegum, járnbrautum og flugvöllum.

Í Skotlandi og Wales var yfir 150 skólum lokað vegna vetrarveðursins. Í norðanverðu Skotlandi urðu yfir 4.000 heimili rafmagnslaus af völdum þess.

Í Englandi breyttu veðmangarar líkunum á því að það yrðu hvít jól í Lundúnum úr 7 á móti 2 í 3 á móti 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×