Erlent

Reynt að frelsa blaðamann

Sænski blaðamaðurinn Dawit Isaak hefur setið í haldi í Erítreu í fjögur ár og lítið frést af honum.
Sænski blaðamaðurinn Dawit Isaak hefur setið í haldi í Erítreu í fjögur ár og lítið frést af honum.

Tvísýnt er hvort stjórnvöld í Erítreu gefi sænska blaðamanninum Dawit Isaak frelsi, eins og þau höfðu heitið segir sendiherra Svíþjóðar í Erítreu, Bengt Sparre, sem unnið hefur að frelsun hans síðustu vikur.

Upplýsingaráðherra Erítreu sagði nýlega að blaðamaðurinn yrði aftur settur bak við lás og slá. "Ég veit ekki hvað sendiherrann hefur heyrt en hann á ekki að koma með bull sem enginn fótur er fyrir. Ég verð að biðja hann um að hætta að rugla fólk með uppspunnum staðhæfingum," sagði ráðherrann.

Þögn ríkir nú um Isaak þar sem málið er á viðkvæmu stigi. Áfram er unnið að frelsun hans. Dawit Isaak hefur ekki komið fyrir rétt í Erítreu en hann var fangelsaður þar fyrir tæpum fjórum árum ásamt öðrum blaðamönnum og stjórnmálamönnum. Hann átti hlut í frjálsu og óháðu dagblaði, Setit, í Erítreu og var honum meðal annars gefið að sök að hafa gagnrýnt stjórnvöld og þegið fjárstuðning til blaðaútgáfunnar.

Á sama tíma og árás var gerð á tvíburaturnana í New York var Setit í hópi þeirra blaða sem birtu gagnrýni á forseta landsins, Issaya Afewerki. Dawit Isaak er upprunalega frá Erítreu en hann flutti með fjölskyldu sína til Svíþjóðar 1989. Árið 2001 fór hann aftur til Erítreu til að taka þátt í frelsisbaráttunni. Hann hefur setið í fangelsi og lítið frést af honum síðan. Stjórnvöld í Erítreu segja að þetta sé innanlandsmál sem komi Svíum ekki við. Heima hafa sænsk stjórnvöld verið gagnrýnd fyrir að beita sér ekki nóg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×