Erlent

Íslendings saknað í Missisippi

Íslenskrar konu er saknað í Missisippi. Utanríkisráðuneytið var beðið um að grenslast fyrir um afdrif tveggja Íslendinga sem fjölskyldur hér heima söknuðu eftir fellibylinn Katrínu í Bandaríkjunum. Annar þeirra, karlmaður, kom í leitirnar heill á húfi síðdegis í gær. Pétur Ásgeirsson, hjá utanríkisráðuneytinu sem sér um aðstoð við Íslendinga erlendis, segir fólkið ekki tengjast. Hvort tveggja hafi búið um tíma í Bandaríkjunum og bæði í Missisippi. Allsendis óljós sé hvort eitthvað hafi hent konuna þrátt fyrir að ættingjarnir hafi engar spurnir af henni haft. Konunnar hefur verið leitað frá fyrsta degi og segir Pétur að svo verði þar til hún finnist. Íslenska sendiráðið í Washington hafi biðlað til bandarískra stjórnvalda um upplýsingar en einnig hafi einn ræðismanna Íslendinga þar ytra hringt í Íslendinga til að athuga hvort einhver hafi heyrt í konunni en svo hafi ekki verið. Um tíu þúsund hafa látist í Louisiana, samkvæmt bandaríska öldungardeildarþingmanninum David Vitter. Hann segir að þúsundir flýji til nágrannaríkja. Fyrstu hjálpargögnin bárust í gær með herbílalestum og vopnuðum hermönnum til borgarinnar New Orleans, fjórum dögum eftir að fellibylurinn fór yfir svæðið. Fólk hefur verið vatns- og martarlaust og ríkir glundroði í borginni. Glæpaklíkur fara um rænandi og ruplandi og er talin hætta á að smitsjúkdómar brjótist út. Bandarísk stjórnvöld eru harðlega gagnrýnd fyrir seinagang við björgunarstörfin. Í Washington Post var vitnað í yfirmann björgunaraðgerðanna í New Orleans, Terry Ebbert, sem segir að þær séu þjóðarskömm. "Við förum létt með að senda gríðarlegt magn hjálpargagna til fórnarlamba flóðbylgju í suðurhluta Asíu, en okkur tekst ekki að flytja fólk á brott frá New Orleans," segir Ebbert. Talið er að fimmtíu þúsund manns séu enn strandaglópar í borginni en áttatíu prósent hennar er í kafi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×