Erlent

Björgunaraðgerðir eru þjóðarskömm

"Skaðinn af völdum hamfaranna vegna fellibyljarins í suðurríkjum Bandaríkjanna er ekki eingöngu af náttúrunnar völdum", segir Sidney Blumenthal fyrrum ráðgjafi Bill Clintons Bandaríkjaforseta í grein í vefútgáfu þýska blaðsins Spiegel. Hann segir að fyrir ári hafi verkfræðingar bandaríska hersins lagt til við Bandaríkjastjórn að gerð yrði úttekt á því hvernig verja mætti New Orleans gegn hrikalegum afleiðingum fellibyljar en það var afþakkað. Snemma árs 2001 hafi Almannavarnir Bandaríkjanna, FEMA, gefið út skýrslu þar sem skýrt var frá því að fellibylur sem færi yfir New Orleans væri ein af þremur líklegustu hamförunum til að eiga sér stað í Bandaríkjunum en hryðjuverkaárás á New York borg var þar einnig nefnd. Árið 2003 voru fjárveitingar til flóðavarna í New Orleans skornar niður til muna og þess í stað veitt til stríðshalds í Írak, að sögn Blumenthal. Í fyrra veittu yfirvöld einungis 20 prósent þess fjármagns sem óskað var eftir til viðhalds flóðvarna um Pontchartrain vatn. Í kjölfar fellibyljarins kom 60 metra skarð í flóðgarða vatnsins og flæddi það yfir New Orleans. "Alls hafa fjárveitingar til flóðvarna því dregist saman um 44,2 prósent frá því 2001," segir Blumenthal. Washington Post gagnrýnir viðbrögð yfirvalda í kjölfar fellibyljarins og segir þau hæg. Þrátt fyrir að sérfræðingar hafi fyrir löngu spáð fyrir um að miklar hamfarir gætu orðið í borginni ef fellibylur riði yfir hafi vandamálið orðið verra vegna þess hve seint og illa var brugðist við að útvega 100 þúsund manns neyðarskýli, segir í blaðinu. Haft er eftir yfirmanni björgunaraðgerðanna í New Orleans, Terry Ebbert, sem segir að björgunaraðgerðirnar séu þjóðarskömm. "Almannavarnir hafa verið hér í þrjá daga en hefur enn enga stjórn á málum," segir Ebbert. "Við förum létt með að senda gríðarlegt magn hjálpargagna til fórnarlamba flóðbylgju í Suðurhluta Asíu, en okkur tekst ekki að flytja fólk á brott frá New Orleans," segir hann. Talsmaður Almannavarna ber í bætifláka fyrir björgunaraðgerðirnar og segir að undirbúningur hafi miðast við viðbrögð við fellibylnum og að hið gríðarlegu flóð hafi komið þeim í opna skjöldu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×