Erlent

Fuglaflensa í rénun í Rússlandi

Fuglaflensufaraldurinn sem borist hefur um Rússland og Kasakstan undanfarin einn og hálfan mánuð virðist í rénun, að sögn yfirvalda í löndunum. Þau segja að tekist hafi að hefta útbreiðslu veirunnar, m.a. með því að setja fjölmarga bæi og býli í sóttkví. Auk þess sé farið að kólna og þá sé veiran ekki eins skæð. Rússneska öryggismálaráðuneytið greindi frá því í dag að engin ný tilfelli hefðu komið upp síðasta sólarhinginn, en á annað hundrað þúsund alifuglum hefur verið slátrað til að koma í veg fyrir útbreiðslu veikinnar. Yfirdýralæknir í Rússlandi hefur þó varað við því að fuglaflensan geti skotið upp kollinum annars staðar í heiminum næsta vor og hefur hann biðlað til Bandaríkjanna og ríkja Evrópu um samstarf um að fylgjast með ferðum farfugla þar sem þeir eru taldir geta borið veiruna frá Rússlandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×