Erlent

Súnníar ákalla alþjóðasamfélagið

Íraskir þingmenn ákváðu í gær að vísa drögum að stjórnarskrá landsins til þjóðaratkvæðagreiðslu. Súnníar eru mjög ósáttir við inntak hennar og skora á alþjóðasamfélagið að koma í veg fyrir að hún verði samþykkt. Stjórnarskrárvinnunni í Írak lauk í gær en þá var uppkastið að lögunum lesið upp fyrir íraska þingmenn, án þess þó að þeir greiddu atkvæði um það. Eftir fundinn lýstu fulltrúar súnnía í stjórnarskrárnefndinni að þeir væru efni plaggsins mjög ósammála og tiltóku þeir sérstaklega andstöðu við að Írak yrði sambandsríki, að ekki væri kveðið á um að landið væri arabaríki og að afdráttarlaust bann væri lagt við starfsemi Baath-flokksins. "Við skorum á Arabaráðið, Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðastofnanir að grípa í taumana svo að þessi lög verði ekki samþykkt nema að óréttlætið í þeim verði leiðrétt," sagði í yfirlýsingu súnníanna. Saleh al-Mutlaq, áhrifamaður úr röðum súnnía, sagði í viðtali við fréttamenn að nú myndu andstæðingar stjórnarskrárinnar ráða ráðum sínum og ákveða næstu skref. Hann hvatti súnnía í landinu til að mótmæla stjórnlagafrumvarpinu á friðsamlegan hátt með því að greiða atkvæði gegn því í þjóðaratkvæðagreiðslunni 15. október.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×