Sport

FH enn með fullt hús stiga

Íslandsmeistarar FH héldu sigurgöngu sinni áfram í dag þegar þeir lögðu Þrótt 3-1 í Landsbankadeild karla en leikið var í Kaplakrika. Tryggvi Guðmundsson skoraði tvö marka FH og þar með búinn að skora 7 mörk í 5 leikjum og er FH með fullt hús stiga í deildinni. Jozef Maruniak jafnaði fyrir Þrótt á 55. mínútu áður en Tryggvi kom heimamönnum aftur yfir úr vítaspyrnu. Jónas Grani Garðarson bætti þriðja markinu við fyrir FH á 83. mínútu. FH-ingar þurftu virkilega að hafa fyrir stigunum í dag. Þróttarar voru mjög sprækir og hefði leikurinn auðveldlega getað snúist þeim í hag þegar á reyndi. Þá gerðu Fram og ÍA markalaust jafntefli á Laugardalsvelli. Fyrri hálfleikur var virkilega fjörugur en sá seinni arfaslakur. Skagamenn komu boltanum í netið á 38. mínútu þegar Gunnar Sigurðsson markvörður Fram missti boltann en Hjörtur Hjartarson sem skoraði markið var dæmdur brotlegur. Atvikið þótti afar umdeilt. FH er enn efst með 15 stig en Valsmenn eiga leik til góða gegn Keflavík á morgun og geta með sigri einnig haldið í fullt hús stiga. Fram náði 3. sæti með jafnteflinu og eru með 7 stig eftir fimm leiki eins og ÍA sem eru þó í 5. sæti reiknað út frá markatölu. Á morgun lýkur 5. umferð með 3 leikjum. Sunnudagur 12. júní 2005 17:00 ÍBV - KR 19:15 Fylkir - Grindavík 19:15 Keflavík - Valur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×