Innlent

Spá verðbólgu og launaskriði

Samkvæmt verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka er útlit fyrir 0,9% hækkun vísitölu neysluverðs á milli ágúst og september. Margt leggst á eitt og stuðlar að mikilli hækkun vísitölunnar að þessu sinni. Útsölulok ásamt hækkun eldsneytisverðs er helsta skýring hækkunarinnar. Íbúðaverð hefur hækkað áfram að undanförnu og hækkar það vísitölu neysluverðs í september en þó umtalsvert minna en síðustu mánuði þar sem dregið hefur úr verðhækkun á þessum markaði. Reiknað er með hækkun matvöruverðs í spánni í takti við þróun síðustu mánuðina. Hagstofan mun birta vísitöluna næst mánudaginn 12. september. Verðbólgan mun mælast 4,2% gangi spáin eftir og eykst úr 3,7%. Verðbólgan rýfur því á ný efri þolmörkin í markmiði Seðlabankans (4%) og þarf bankinn í framhaldinu að gera ríkisstjórninni skriflega grein fyrir áformum sínum til að ná tökum á henni. Um er að ræða fimmta mánuðinn á þessu ári sem verðbólgan er yfir þolmörkunum. Hins vegar má reikna með að verðbólgan hjaðni lítillega á næstu mánuðum og fari jafnvel aftur undir efri þolmörkin strax í október. Miðað við fast gengi krónunnar er útlit fyrir að verðbólgan yfir þetta ár reynist 3,6% og aðeins 3,1% þegar horft er yfir næsta ár. En Greining Íslandsbanka telur þó ólíklegt að krónan haldist jafn sterk og hún er núna fram á næsta ár.  Óvissan liggur fremur í átt til aukinnar verðbólgu þegar horft er til næstu missera og til næstu ára. Eftirspurn er vaxandi í hagkerfinu og spenna hefur myndast á vinnumarkaði sem mun sennilega leiða til launaskriðs áður en langt um líður. Þá virðist gengi krónunnar líklegra til að lækka en hækka þegar horft er tvö ár fram í tímann. Ef miðað er við spá Greiningar Íslandsbanka um lækkandi gengi krónunnar á næsta ári þá er útlit fyrir um 5,3% verðbólgu á því ári og vaxandi verðbólgu á árinu 2007 samhliða frekari gengislækkun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×