Erlent

Fordæmalaust eignatjón

Fellibylurinn Katrín gekk á land í Louisiana og Mississippi í Bandaríkjunum í gær og olli gífurlegu eignatjóni. Gamli bærinn í New Orleans lenti undir tveggja metra djúpu vatni og í Biloxi fuku hús eins og spilaborgir. Olíuverð náði áður óþekktum hæðum vegna bylsins. Allt stefndi í að Katrín yrði einhver öflugasti fellibylur sögunnar og því var viðbúnaður í New Orleans og nágrenni afar mikill. Um ein milljón manna yfirgaf borgina að skipan borgaryfirvalda og þeir sem ekki komust burt leituðu skjóls á hinum yfirbyggða Louisiana Superdome íþróttaleikvangi. Katrín gekk svo á land um ellefuleytið í gærmorgun að íslenskum tíma skammt austur af New Orleans. Vindhraði var þá afar mikill eða 62 metrar á sekúndu - tvöfalt fárviðri - en fljótlega tók svo að draga út styrk bylsins. Óttast hafði verið að yfirborð sjávar myndi hækka um ríflega átta metra vegna loftþrýsingslækkunarinnar en það reis þó aldrei meira en rúma fjóra metra. Engu að síður urðu mikil flóð í New Orleans, sem er allt að þrjá metra undir sjávarmáli, og var gamli bærinn um tíma á kafi í tveggja metra djúpu vatni. Rúður mölbrotnuðu og hluti þaksins af Louisiana Superdome rifnaði. Mikið tjón var í bænum Biloxi og við Pontchartain-vatn fóru heilu hverfin á bólakaf. Síðdegis tók Katrínu hins vegar að þverra máttur en engu að síður tókst henni að gera mikinn óskunda í Mississippi þangað sem hún lagði leið sína næst. Ekki er vitað um dauðsföll eða alvarleg slys á fólki vegna veðursins, ef frá eru talin þrír rosknir sjúklingar sem ekki þoldu flutning af hjúkrunarheimili sínu. Eignatjón er hins vegar gríðarlegt en frumáætlanir tryggingarfélaga gera ráð fyrir að tjónið nemi allt að 1.600 milljörðum króna, það mesta sem fellibylur hefur nokkurn tímann valdið í Bandaríkjunum.. Þá fór olíuverð í fyrsta sinn í sögunni yfir sjötíu dali á fatið en olíuframleiðsla á Mexíkóflóa stöðvaðist á meðan óveðrið gekk yfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×