Erlent

Rændu peningabíl í Stokkhólmi

Fjórir vopnaðir og hettuklæddir menn rændu peningaflutningabíl á hraðbraut í suðurhluta Stokkhólms um hádegisbilið í dag. Eftir því sem fram kemur á fréttavef sænska blaðsins Aftonbladet stöðvuðu mennirnir fjórir flutningabílinn, sem var á vegum Securitas, á hraðbrautinni og þvinguðu tvo verði út úr bílnum. Í kjölfarið sprengdu þeir upp læsinguna á bílnum en ekki er ljóst hvort og þá hversu mikið þeir höfðu á brott með sér. Ránið virðist hafa verið þaulskipulagt því á flóttanum kveiktu ræningjarnir í sex bílum og dreifðu nöglum á hraðbrautina svo ekki væri hægt að veita þeim eftirför. Þurfti lögregla því í fyrstu að nota vélhjól og þyrlur til þess að reyna að hafa hendur í hári þeirra. Engan sakaði í hamaganginum en hraðbrautin var lokuð í allnokkurn tíma eftir ránið. Upp úr klukkan eitt náðist einn ræningjanna en lögregla leitar enn þá hinna þriggja. Þá hefur lögreglan einnig fundið tösku á hraðbrautinni merkt orðinu sprengja og telur hún hugsanlegt að mennirnir hafi geymt þar sprengjur sem þeir notuðu til að sprengja upp peningaflutningabílinn og nokkra flóttabíla. Fyrr í dag var framið annað rán í grenndinni en lögregla veit ekki hvort ránin tengjast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×